top of page

Writings

 

ENERGEY SOURCE

Þriðjudaginn 14. mars, 2006
MYNDLIST - Gallerí Box, Akureyri

Sprengikraftur málverksins

Ásdís Spanó - Orkulindir
 

Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson

 

Gagnrýnandinn segir verkin "ná að sprengja af sér takmörk hugtaka á borð við abstrakt eða fígúratíft".

 

ÁSDÍS Spanó er einn okkar efnilegri málara af yngri kynslóðinni en hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003. Síðan hefur hún sýnt verk sín m.a. í sal Orkuveitunnar og í Gallerí Turpentine. Viðfangsefni hennar er náttúran, en þó að það liggi beinast við að líta á verk hennar sem eftirmyndir af náttúrunni er það þó frekar náttúra og eiginleikar olíulitanna sjálfra, þykkt þeirra, áferð og efnablöndun sem skapar myndverk hennar og gefur þeim líf. Íslensk augu túlka málverk hennar samstundis og segja, þetta eru myndir af hverasvæðum, ég þekki þessa liti, gráu og hvítu og veit hvernig drulluhverir og goshverir haga sér. En allt eins mætti ímynda sér önnur augu, sem aldrei hafa hverasvæði augum litið og túlkun þeirra væri ef til vill á annan veg. Þá væri nær lagi að tala um athafnamálverk, abstrakt verk þar sem tilviljunin fær að skapa í samspili við málarann.

 

Litirnir sem Ásdís notar eru einnig nútímalegir og alþjóðlegir, þetta eru ekki hefðbundnir litir íslenskra landslagsmálverka þó þessi verk séu óneitanlega einnig innlegg í þann geira íslenskrar myndlistar, þessir litir minna allt eins á borgarlandslag, en það væri þá landslag springandi borga. Kannski eru þetta ekki goshverir heldur sprengjur í olíugeymum fyrir utan London? Það er þó ekki síst samspil allra þessara ólíku þátta sem dregur áhorfandann að verkum Ásdísar, þau birta allt í senn landslag, náttúrufyrirbæri og maleríska aðgerð, en eru um leið tilviljunum háð. Þau ná að sprengja af sér takmörk hugtaka á borð við abstrakt eða fígúratíft. 
Ásdís sýnir hér verk af minni gerðinni, sem hæfa sýningarstaðnum. Hún hefur opnað Boxið og gefið verkum sínum litaðan bakgrunn til að tengja litla kassann betur stærra rýminu, líma verk sín saman ef svo má segja og skapa þannig litla en sannfærandi heild. Hér var á ferð sýning af smærri gerðinni en kraftur í verkunum engu að síður. 


Ragna Sigurðardóttir

bottom of page